logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Safnanótt í Bókasafninu, Listasalnum og Skjalasafni Mosfellsbæjar

10/02/2017
Bókasafnið var í fyrsta sinn með í hinu árlega Safnanæturævintýri. Við fengum góða gesti og allir voru fúsir að gera dagskrána sem skemmtilegasta.
Boðið var upp á nokkrar nýjungar svo sem krakkajóga, sem var mjög vel tekið og fjöldi áhugasamra krakka tók þátt af innlifun.
Lesin var draugasaga fyrir börnin og heppnaðist lesturinn vel. Aðeins var leyfilegt að vera með vasaljós og týrur á meðan, þannig að stemningin var skemmtilega draugaleg.
Boðið var upp á flatbökur og djús fyrir börnin, kaffi og kleinur fyrir fullorðna.
Spurningaleik á vegum Safnanætur var ágætlega tekið, og verður unnið úr svörum hjá Höfuðborgarstofu í Reykjavík.
Leikfélag Mosfellssveitar flutti atriði úr Skilaboðaskjóðunni, sem var skemmtilegt og litríkt, og fram kom strengjasveit frá Listaskólanum; flottir krakkar sem léku vel undir stjórn Wilmu Young.
Georg Douglas myndlistarmaður sýnir um þessar mundir í Listasalnum og kynnti hann sýningu sína, og síðan toppaði Tindatríóið dagskrána ásamt Wilmu Young fiðluleikara og Arnhildi Valgarðsdóttur píanóleikara.
Góð þátttaka var í ratleiknum, bæði meðal barna og fullorðinna. Búið er að draga úr réttum lausnum, og geta vinningshafar sótt bókaverðlaun í Bókasafnið eftir 15. febrúar.

Amelía Czech
Kolbrún Una
Sigrún Mjöll Ívarsdóttir
Birna María Þorbjörnsdóttir
Svava Björk Ásgeirsdóttir


Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna og þátttökuna.
Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira